Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka styrkir Hvað nú?
Í lok nóvember hlaut Hvað nú? veglegan styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, sem styður frumkvöðla- og nýsköpunarverkefni á Íslandi. Styrkurinn mun nýtast Hvað nú? til áframhaldandi þróunar á Fyrirhyggju, stafrænni lausn sem einfaldar dánarumsýslu (e. death administration).
Markmið Fyrirhyggju er að draga úr álagi og óvissu, bæta nýtingu réttinda og auka skilvirkni samskipta í kjölfar andláts. Lausnin hefur jafnframt það að markmiði að létta álagi af samfélagslegum innviðum og spara atvinnulífinu umtalsverðar fjárhæðir ár hvert.
Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka hefur það að markmiði að hvetja til nýsköpunar og þróunar með stuðningi við verkefni sem stuðla að sjálfbærri þróun og samfélagslegum áhrifum. Verkefnin sem hlutu styrk í ár eru afar fjölbreytt en alls var 60 milljónum króna úthlutað til sextán verkefna af þeim 150 umsóknum sem bárust sjóðnum í ár, sem er metfjöldi umsókna.
„Stuðningur Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka styrkir okkur í þeirri sýn að bæta aðgengi að upplýsingum og draga úr álagi á aðstandendur á erfiðum tímum. Við erum afar þakklát fyrir traustið sem okkur er sýnt með veitingu þessa mikilvæga styrks og lítum á hann sem stóran áfanga í uppbyggingu Hvað nú? – bæði til að auka umfang þjónustunnar og efla getu okkar til að hafa jákvæð áhrif á líf fólks sem stendur frammi fyrir krefjandi aðstæðum. Það skiptir miklu máli að framtíðarsýn okkar fái hljómgrunn hjá aðilum á borð við Íslandsbanka sem styðja samfélagslega nýsköpun,“ segir Erna Niluka, annar stofnenda Hvað nú?.
Um Frumkvöðlasjóð Íslandsbanka
Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka styður frumkvöðla- og nýsköpunarverkefni sem tengjast fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem bankinn hefur valið að leggja sérstaka áherslu á: menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og innviði og aðgerðir í loftslagsmálum. Styrkir úr sjóðnum eru veittir árlega og eru hluti af stefnu Íslandsbanka um að styðja við nýsköpun og sjálfbær verkefni á Íslandi.
https://www.islandsbanki.is/is/frett/frumkvodlasjodur-islandsbanka-veitir-60-milljonir
Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka, Erna Niluka Njálsdóttir, Guðrún Heimisdóttir, Brynja Bjarnadóttir og Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka. Ljósmynd: Íslandsbanki
Styrkhafar Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka árið 2025 ásamt dómnefnd. Ljósmynd: Íslandsbanki